Eftir að sjóðfélagar samþykktu sameiningu Lífsverks og Almenna hófst formlegt samþykktarferli með tilkynningu til Samkeppniseftirlitsins og beiðni um staðfestingu Fjármála- og efnahagsráðuneytis á breytingum á samþykktum sjóðanna.
Athugun Samkeppniseftirlitsins á áhrifum samrunans stendur yfir en eftirlitið hefur upplýst um að engar ábendingar hafi komið fram sem mæli gegn samruna sjóðanna. Samkeppniseftirlitið hefur því veitt undanþágu sem heimilar samrunanum að koma til framkvæmda.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur þegar staðfest samþykktir sjóðanna.
Almenni-Lífsverk lífeyrissjóður hefur formlega starfsemi þann 1. janúar 2026.
Við samruna Lífsverks og Almenna verða áunnin réttindi sjóðfélaga Lífsverks flutt í sameinaðan sjóð og haldast óbreytt til framtíðar í samræmi við tryggingafræðilega stöðu á hverjum tíma. Með áunnum réttindum er átt við réttindi sem hafa áunnist fyrir greidd iðgjöld árið 2025 og fyrr.
Framtíðarréttindi vegna iðgjalda ársins 2026 og síðar ávinnast samkvæmt samþykktum Almenna – Lífsverks, sameinaðs sjóðs.
Það mun taka nokkurn tíma að birta flutt réttindi í Lífsverki á sjóðfélagavef sameinaðs sjóðs en þangað til verða upplýsingar um áunnin réttindi áfram aðgengilegar á sjóðfélagavef Lífsverks. Sjóðfélagar verða upplýstir þegar upplýsingar um réttindi og inneign verða aðgengilegar á sjóðfélagavef Almenna - Lífsverks.
Almenni – Lífsverk, sameinaður sjóður greiðir lífeyri í byrjun mánaðar (fyrir fram) í samræmi við samþykktir.
Lífeyrisþegar Lífsverks, sem áður fengu greiddan lífeyri í lok mánaðar, munu því fá lífeyri greiddan í lok desember og svo aftur í byrjun janúar. Framvegis verður lífeyrir hvers mánaðar greiddur fyrir fram eða í byrjun mánaðar.
Hilton Nordica, Reykjavík
Almenni-Lífsverk býður sjóðfélögum á kynningarfund um sameininguna. Á fundinum verður sérstök kynning á ávöxtunarleiðum séreignarsjóðs og farið yfir flutt- og framtíðarréttindi í sameinuðum samtryggingarsjóði.
Fundinum verður jafnframt streymt á heimasíðu sjóðsins og upptaka frá honum mun lifa áfram. Nánari upplýsingar um fundinn verða birtar síðar.
Heimasíða Lífsverks verður opin á meðan þurfa þykir til að tryggja aðgang að sjóðfélagavef en einnig verður hægt að komast inn á sjóðfélagavef Lífsverks undir mínar síður á heimasíðu sameinaðs sjóðs www.almenni-lifsverk.is. Sjóðfélögum sem vilja nánari upplýsingar er bent á að þeir eru velkomnir á skrifstofu sjóðsins til að hitta ráðgjafa. Ráðgjöf hjá Almenna – Lífsverki er að kostnaðarlausu og án skuldbindinga. Mælt er með að fólk panti tíma á vefsíðu sjóðsins.
Sjóðfélagar Lífsverks lífeyrissjóðs hafa tímabundna heimild frá 1. janúar til 30. júní 2026 til að umbreyta 15% af áunnum ellilífeyrisréttindum í inneign í séreignarsjóði hjá Almenna – Lífsverk.
Heimildin miðast við stöðu áunninna ellilífeyrisréttinda vegna iðgjalda ársins 2025 og fyrr, á verðlagi þann 1. júlí 2026. Umbreytingin verður framkvæmd í byrjun júlí. Við umbreytinguna lækka áunnin ellilífeyrisréttindi sjóðfélaga, og þar með ellilífeyrisgreiðslur úr samtryggingardeild, um 15%, en á móti eignast sjóðfélagar samsvarandi inneign í séreignarsjóði. Rétt er að árétta að umbreytingin tekur einungis til ellilífeyrisréttinda og að sjóðfélagar halda óbreyttum réttindum til örorku-, maka- og barnalífeyris.
Heimildin nær ekki til þeirra sem höfðu byrjað töku lífeyris á árinu 2025 eða fyrr. Stjórn Lífsverks gaf vilyrði fyrir því að leggja fram breytingatillögu á aðalfundi sjóðsins vorið 2026 um að útvíkka heimildina til lífeyrisþega, ef frekari skoðun leiðir í ljós að slíkt væri mögulegt.
Athugun á því stendur yfir og verða lífeyrisþegar látnir vita þegar frekari upplýsingar liggja fyrir.
Umsókn um umbreytingu lífeyrisréttinda verður aðgengileg á heimasíðu Almenna – Lífsverks í byrjun janúar.
Þeim sjóðfélögum sem hyggjast fara á lífeyri fljótlega en vilja nýta sér þessa heimild er bent á að heimildin verður í boði frá 1. janúar til 30. júní 2026 óháð því hvenær þeir sækja um lífeyri.
Við samruna Lífsverks lífeyrissjóðs og Almenna lífeyrissjóðsins munu ávöxtunarleiðir séreignarsjóðs Lífsverks sameinast leiðum í séreignarsjóði Almenna – Lífsverks.
Sameiningin hefur nokkur áhrif á eignasamsetningu sjóðfélaga í ávöxtunarleiðum beggja sjóða. Fyrir sjóðfélaga í Lífsverki 1 og 2 eykst vægi erlendra hlutabréfa á kostnað innlendra og samsetning skuldabréfa breytist. Breytingin er minni fyrir sjóðfélaga Almenna en þó breytist samsetning hlutabréfa í Ævisafni III.
Sjóðfélögum verður jafnframt heimilt að færa inneign, að hluta eða í heild, milli annarra ávöxtunarleiða sameinaðs sjóðs eða í Ævileiðina án kostnaðar allt til 30. júní 2026.
Þar sem Lífsverk 1 vegur tiltölulega lítið af heildarstærð Ævisafns II eftir sameiningu mun eignasamsetning sjóðfélaga í Ævisafni II breytast lítið. Sameiningin hefur því óveruleg áhrif á sjóðfélaga Almenna.
Eignasamsetning breytist hins vegar nokkuð fyrir sjóðfélaga Lífsverks. Vægi erlendra hlutabréfa vex á kostnað innlendra og samsetning skuldabréfa breytist.
Byggir á upplýsingum um eignir beggja sjóða m.v. 30. september 2025.
Eignasamsetning Ævisafns III breytist nokkuð með hærra vægi innlendra hlutabréfa og breyttri samsetningu skuldabréfa. Hjá Lífsverki verða meiri breytingar: Vægi erlendra hlutabréfa eykst, innlendra minnkar og samsetning skuldabréfa breytist.
Önnur skuldabréf eru í stærðarröð: Veðtryggð skuldabréf fasteignafélaga, sértryggð skuldabréf banka, skuldabréf orkufyrirtækja, sveitarfélaga, fyrirtækja og annarra útgefenda.
Byggir á upplýsingum um eignir beggja sjóða m.v. 30. september 2025.
Hjá sjóðfélögum Almenna eykst vægi annarra skuldabréfa og innlána. Hjá sjóðfélögum Lífsverks hækkar vægi veðskuldabréfa og vægi ríkisskuldabréfa lækkar.
Önnur skuldabréf eru í stærðarröð: Veðtryggð skuldabréf fasteignafélaga, sértryggð skuldabréf banka, skuldabréf orkufyrirtækja, sveitarfélaga, fyrirtækja og annarra útgefenda.
Byggir á upplýsingum um eignir beggja sjóða m.v. 30. september 2025.
Sjóðfélagar geta valið á milli sjö ávöxtunarleiða og Ævileiðarinnar þar sem inneign færist milli safna eftir aldri.
Ávöxtunarleiðirnar verða kynntar sjóðfélögum á sérstökum fundi þann 27. janúar. Sjóðfélagar geta lesið um ávöxtunarleiðir á heimasíðu sjóðsins hér.
Ævisöfn I, II og III eru blönduð verðbréfasöfn með skuldabréfum, hlutabréfum og innlánum. Eignasamsetning safnanna er mismunandi og sjóðfélögum ráðlagt að greiða í söfnin eftir aldri þannig að vægi skuldabréfa aukist með aldrinum. Í Ævileiðinni er inneign flutt milli ævisafnanna eftir aldri.
Almenni-Lífsverk vinnur að endurskoðun lánareglna með hliðsjón af reglum beggja eldri sjóða. Nýjar reglur verða kynntar um mánaðamót febrúar og mars. Þangað til gilda lánareglur Almenna lífeyrissjóðsins.
Í boði eru verðtryggð og óverðtryggð lán. Vextir eru annaðhvort festir til 36 mánaða og breytilegir eftir það, eða verðtryggðir fastir vextir út lánstímann.
Sótt er um lán á sérstökum lánavef þar sem jafnframt er hægt að fylgjast með afgreiðslu umsókna.
Skrifstofa sameinaðs sjóðs, Almenna-Lífsverks, verður á Dalvegi 30, 2. hæð, 201 Kópavogi.
Þar er góð aðstaða til að taka á móti sjóðfélögum í ráðgjöf eða á fræðslufundi.
Þeim sem vilja nánari upplýsingar er bent á að senda fyrirspurnir á netfang sjóðsins eða hafa samband við skrifstofu sjóðsins.
almenni-lifsverk@almenni-lifsverk.is